03. febrúar. 2005 07:54
Einhver umtalaðasti vegarspotti Vesturlands er Útnesvegur um Klifhraun en nýr vegur á þeim kafla hefur verið á teikniborðinu frá því 1994 og hefur farið tvisvar sinnum í umhverfismat, eins og fjallað hefur verið um í Skessuhorni. Í lok síðasta árs hyllti loks undir að framkvæmdir gætu farið að hefjast og var talað um að bjóða verkið út fyrir áramót. Það hefur enn ekki verið gert og aðspurður sagði Auðunn Hálfdánarson hjá Vegagerðinni í Borgarnesi að framkvæmdin væri ekki á áætlun fyrr en í ár en stundum væru verkin boðin út á árinu á undan. Það hefði hinsvegar frestast en yrði væntanlega gert innan tíðar.