17. maí. 2015 10:13
ÍA mætti lærisveinum Ólafs Þórðarsonar í Víkingi R. á Akranesvelli fyrr í kvöld. Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru ekki þær bestu, kalt og nokkuð hvass hliðarvindur en völlurinn leit vel út. Leikurinn fór rólega af stað þar sem bæði lið þreifuðu fyrir sér. Víkingar komust yfir á 17. mínútu þegar Haukur Baldvinsson fékk knöttinn í vítateig Skagamanna, kom skoti að marki sem fór af varnarmanni og í netið. Víkingar voru beittari fyrstu mínúturnar þar á eftir en leikurinn opnaðist eftir sem leið á hálfleikinn. Bæði lið áttu skot í þverslá, Skagamenn úr aukaspyrnu Jóns Vilhelms Ákasonar og Víkingar eftir skyndisókn. Á 42. mínútu átti Jón Vilhelm svo fyrirgjöf frá hægri sem féll fyrir fætur Garðars Gunnlaugssonar. Hann lagði boltann fyrir sig og smellti honum í nærhornið úr vítateignum. Staðan 1-1 í hálfleik, nokkuð sanngjarnt þrátt fyrir að Víkingar hafi ef til vill verið ögn sterkari.
Í síðari hálfleik var annar bragur á sóknarleik Skagamanna, leikurinn opnari og bæði lið sóttu. Skagamenn sköpuðu sér nokkur ákjósanleg marktækifæri, flest eftir laglegt kantspil og voru nálægt því að koma boltanum í netið en allt kom fyrir ekki. Tvisvar sinnum á skömmum tíma björguðu leikmenn Víkings á marklínu og þrátt fyrir mörg tækifæri vantaði herslumuninn.
Á 85. mínútu fékk Agnar Darri Sverrisson sendingu inn fyrir vörn Skagamanna, var kominn í dauðafæri og gat stolið sigrinum en Árni Snær varði stórvel í markinu. Víkingar komu reyndar boltanum í netið í uppbótartíma en mark Igors Taskovic var dæmt af vegna brots á Árna Snæ í marki Skagamanna. Stuðningsmenn Víkings voru ekki par sáttir með Guðmund Ársæl Guðmundsson dómara en þar við sat. Niðurstaðan 1-1 jafntefli á Akranesvelli.