27. maí. 2015 04:01
Borgfirðingar minnast Jónasar Árnasonar (1923-1998), kennarans, skáldsins og alþingismannsins með kvöldstund í Logalandi á afmælisdegi hans á morgun, fimmtudaginn 28. maí kl. 21. Þar verður litið yfir farinn veg hans og þeirra hjóna beggja, Jónasar og Guðrúnar (1923-1997), en þau bjuggu lengi í Reykholtsdal. Minning Jónasar Árnasonar hlýtur fyrst og fremst að litast af því, hve marga strengi mannlífsins hann snerti og hve samstíga þau hjón voru í öllum verkefnum, sem fyrir þau lögðust. Í Reykholtsdal er Jónasar fyrst og fremst minnst sem kennara við Héraðsskólann í Reykholti, rithöfundar, alþingismanns og fyrir þátttöku í leikstarfi Ungmennafélags Reykdæla.
Til þess að kvöldstundin verði sem ánægjulegust hafa Snorrastofa, Ungmennafélag Reykdæla og Tónlistarfélag Borgarfjarðar sameinað krafta sína með tilstyrk Menningarráðs Vesturlands og kennir margra grasa í dagskránni.
Dagskrá:
• Um Jónas, ávarp og hugleiðingar forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar.
• Úr foreldrahúsum. Börn Jónasar og Guðrúnar segja frá og taka lagið með gestum.
• Stóri maðurinn Jónas Árnason, frá sjónarhóli barns. Árni Páll Árnason alþingismaður.
• Aridú… Lög við ljóð Jónasar. Guðríður Ringsted syngur. Gunnar Ringsted leikur á gítar, Birgir Baldursson á trommur, Jakob Frímann Magnússon á píanó og Jón Rafnsson á bassa. Jón Árnason barnabarn leikur einleik á gítar.
Dagskrárstjóri verður sr. Geir Waage.
Ungmennafélag Reykdæla, sem minnist margra góðra stunda með Jónasi í leikstarfi, býður fram félagsheimili sitt og sér um veitingar í kaffihléi. Þær kosta kr. 500. „Snorrastofu er heiður að því að bjóða til slíkrar stundar í svo gefandi samstarfi og hlakkar til líflegs vorkvölds í Reykholtsdal undir merkjum menningar og mannlífs, sem alla tíð einkenndu hjónin á Kópareykjum,“ segir í tilkynningu.