04. febrúar. 2005 07:20
Ökumaður malarflutningabíls slasaðist þegar bíll hans valt laust fyrir klukkan 14 í dag þegar verið var að aka efni í grunn í Flatahverfinu á Akranesi. Beita varð klippum slökkviliðs til að ná manninum út úr bílnum. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, sótti hinn slasaða til Akraness og flutti undir læknishendur í Reykjavík. Þyrlan var við æfingar á Rauðarárvík við Reykjavík er kallið barst og var því fljót á vettvang eftir að hafa tekið fyrst eldsneyti á Reykjavíkurflugvelli og sótt þangað lækni.
Kl. 19:14
Skv. frétt á mbl.is laust eftir klukkan 19 í kvöld var líðan vörubílstjórans stöðug samkvæmt upplýsingum vakthafandi læknis á Landspítala - háskólasjúkrahúsi.