08. febrúar. 2005 02:44
Eins og fram hefur komið í Skessuhorni hefur undirbúningur að byggingu reiðhallar í Borgarnesi staðið síðustu misseri að frumkvæði hestamannafélagsins Skugga. Nú eru allar líkur á að ráðist verði í byggingu reiðhallarinnar í nágrenni við félagssvæði Skugga. Félagið hefur óskað eftir því við Borgarbyggð að sveitarfélagið tilnefni fulltrúa í framkvæmdanefnd og reiknað er með að í henni verði einnig fulltrúar frá Hestamannafélaginu Faxa og Hrossaræktarsambandi Vesturlands, auk Skugga, en þessir aðilar hafa allir lýst vilja til að koma að byggingu hússins.
Að sögn Páls Brynjarssonar bæjarstjóra Borgarbyggðar er ekki ákveðið með hvaða hætti sveitarfélagið kemur að reiðhallarbyggingunni, hvort það verður með beinni eignaraðild eða stuðningi við hestamannafélagið en að öllum líkindum verður fyrri kosturinn fyrir valinu. Fastlega er búist við að reiðhöllin rísi á þessu ári.