01. júlí. 2015 08:01
„Það er auðvitað margt sem þarf að huga að. Allt frá stórum listamönnum niður í ferðaklósett. En undirbúningurinn hefur gengið mjög vel,“ sagði Hallgrímur Ólafsson, verkefnisstjóri Írskra daga, þegar blaðamaður Skessuhorns spjallaði við hann fyrr í vikunni. Írskir dagar fara fram dagana 2.-5. júlí en aðeins fimm vikur eru síðan Hallgrímur tók við starfinu. „Þetta er mjög knappur tími en sem betur fer er bærinn með frábært starfsfólk sem veit svörin við ýmsum spurningum og getur leyst hin ýmsu vandamál,“ segir hann.
Til að vekja athygli á hátíðinni hefur meðal annars verið komið á samstarfi við Ríkisútvarpið. Kvöldfréttir á fimmtudag verða lesnar í beinni útsendingu frá Akranesi og Sumarfréttir, nýr þáttur söngkonunnar Sölku Sólar og Hraðfréttadrengjanna Benedikts Valssonar og Fannars Sveinssonar verður sendur út frá opnunarhátíðinni eftir fréttir. Á laugardaginn verður útvarpsþátturinn Svart og sykurlaust í umsjón Sólmundar Hólm í beinni útsendingu frá hátíðinni.
Virkja kraft unga fólksins
Dagskrá hátíðarinnar verður að sögn Hallgríms nokkuð hefðbundin í sniðum en þó með nokkrum áherslubreytingum og nýjungum. „Mig langaði að gera aðeins meira úr opnunarhátíðinni. Hún hefur fengið nafnið „Litla lopapeysan“ og verður aðeins stærri í sniðum en verið hefur og var því flutt niður á höfn,“ segir hann. „Við ætlum að leggja áherslu á að virkja allt það góða fólk sem við eigum hér í bænum, bæði fyrirtæki og einstaklinga. Við eigum nefnilega svo mikið af frambærilegu fólki og þá sérstaklega tónlistarfólki,“ segir Hallgrímur. „Ég hef undanfarin þrjú ár unnið með nemendum úr fjölbrautaskólanum. Í því starfi mínu hef ég kynnst svo mörgum hæfileikaríkum krökkum og ég er náttúrulega að nýta mér það sem ég hef séð í því starfi mínu. Ég vonast til að þetta geti orðið smá stökkpallur fyrir þá,“ bætir hann við. Á Litlu Lopapeysunni verða meðal annars sýnd atriði úr Grease, sem settur var upp í Fjölbrautaskóla Vesturlands í vor og söngleiknum Úlfur Úlfur, sem Grundaskóli setti upp. Auk þess kemur Margrét Saga Gunnarsdóttir fram, en hún sló í gegn í síðustu þáttaröð Ísland Got Talent sem sýnd var í vetur og enn eru fjölmargir skemmtikraftar ótaldir. Rætt er við Margréti Sögu í Skessuhorni sem kom út í dag.
Keppt um írskasta hreiminn
Slegið verður upp götumarkaði í miðbænum, í gamla Lansdbankahúsinu, á laugardeginum og Akratorg mun iða af lífi alla helgina. Sandkastalakeppnin og dorgveiðin verður á sínum stað eins og undanfarin ár. Karnival-stemning verður á Merkurtúni með leiktækjum fyrir börnin. Meðal nýjunga má til dæmis nefna keppnina um írskasta húsið, þar sem bæjarbúar keppa um best skreytta húsið. Einnig má nefna keppnina um írskasta hreiminn, sem haldin verður á Vitakaffi á föstudagskvöldið. „Hver keppandi þarf að fara með setningu á ensku með írskum hreim og svo aftur á íslensku, sömu setninguna. Þetta verður mjög skemmtilegt,“ segir Hallgrímur léttur í bragði. „En aðaláherslan er eftir sem áður lögð á fjölskylduvæna dagskrá. Þetta á að vera þannig að allir viðburðir séu fjölskylduvænir og að fjölskyldan geti gert allt saman,“ bætir hann við.
Eins og undanfarin ár verður brekkusöngur við þyrlupallinn á laugardagskvöldið áður en bæjarbúar halda á ball og dansa út í nóttina á Lopapeysunni niðri við höfn. Dagskránni lýkur svo á sunnudaginn með fjölskylduskemmtun í Garðalundi.
„Að lokum hvet ég Skagamenn til þess að taka vel á móti gestum hátíðarinnar og þakka í leiðinni fyrir mig,“ segir Hallgrímur.
Sjá má dagskrá Írskra daga í heild sinni í Skessuhorni sem kom út í dag.