02. júlí. 2015 10:00
Í bakgarði við Vesturgötu 80 á Akranesi býr Huginn, fallegur og gæfur hrafn. Eigandi Hugins er Sigmundur Heiðar Árnason en fuglinn fann hann ósjálfbjarga fyrir nokkrum vikum. „Við félagarnir vorum að labba við Sementsverksmiðjuna fyrir rúmum þremur vikum og fundum þar tvo hrafnsunga á jörðinni. Annar þeirra var talsvert laskaður á væng þannig að við tókum fuglana í fangið og gengum með þá heim. Við vissum ekki hvað þeir voru gamlir en þeir voru líklega ný dottnir úr hreiðrinu. Þeir voru enn með dún og ekki komnir með flugfjaðrir,“ segir Sigmundur í samtali við Skessuhorn. Hrafnarnir Huginn og Muninn hafa stækkað og dafnað á þessum vikum og Muninn hefur jafnað sig í vængnum. Þeir búa í nágrenni við hvorn annan á neðri Skaga og hafa það gott. Sigmundur segir Huginn vera mjög gæfan og kelinn. „Hann vill vera innan um fólk og er mjög forvitinn. Ef ég er inni að smíða þá heyrir hann hávaðann og kemur inn og kíkir á mig.“
Sigmundur segir betur frá hrafninum í viðtali í Skessuhorni vikunnar.