02. júlí. 2015 11:14
Svo virðist sem að Landsvirkjun geti ekki afgreitt nægilega orku til tveggja stóriðja sem báðar eru á teikniborðinu. Þetta eru kísilverksmiðja Thorsil í Helguvík og sólarkísilverksmiðja Silicor Materials á Grundartanga. Ástæðan fyrir því að næg orka mun ekki verða fyrir hendi er sú að Alþingi hefur samþykkt breytingatillögu við rammaáætlun sem kveður á um að hvorki Holtavirkjun né Urriðafossvirkjun í Þjórsá á Suðurlandi verða settar í nýtingarflokk. Það þýðir að ekki liggur fyrir að hægt verði að virkja á þremur stöðum í neðri hluta Þjórsár. Eini kosturinn þar sem eftir stendur eftir meðferð Alþingis er Hvammsvirkjun. Hún tryggir einungis 82 megawött. Stóriðjufyrirtækin Thorsil og Silicor Materials þurfa hins vegar samanlagt 125 megawatta orku.
Morgunblaðið skrifar um málið í dag. Þar segir Jón Gunnarsson alþingismaður Sjálfstæðisflokks og formaður atvinnuveganefndar þingsins að þessi niðurstaða Alþingis feli í sér vonbrigði. Ekki einungis séu verksmiðjuáform Thorsil og Silicor Materials í uppnámi heldur einnig aðrar hugmyndir um atvinnuuppbyggingu.
Landsvirkjun verst allra frétta af málinu og hið sama gera forsvarsmenn Thorsil og Silicor Materials.
Skessuhorn fjallaði um það í blaði síðustu viku að togstreita væri komin upp á yfirborðið um ráðstöfun orku Landsvirkjunar þar sem verksmiðju Thorsil í Helguvík væri teflt gegn verksmiðju Silicor í Grundartanga. Að óbreyttu er fyrirsjáanlegt að einungis verði til orka fyrir aðra verksmiðjuna.
Þann 19. júní síðastliðinn skrifaði Jón Gunnnarsson eftirfarandi á Facebook-síðu sinni:
"Samhengi hlutanna er að þessi verksmiðja [Silicor á Grundartanga] þarf rafmagn, þess vegna erum við í baráttu við Bjarta Framtíð, Pírata, Samfylkingu og Vinstri græn um byggingu virkjana í Neðri - Þjórsá. Þau vilja koma í veg fyrir þær framkvæmdir. Hér er um að ræða eitt áhugaverðasta verkefni í orkufrekum iðnaði sem rekið hefur á fjörur okkar. Yfir 100 milljarða fjárfesting, mengunarlaus orkufrekur iðnaður, útflutningsverðmæti sem jafnast á við 2-2,5 makrílvertíðir og 450 vel launuð störf. Um þetta snýst barátta fyrir skynsamlegri nýtingu orkuauðlinda okkar. Við gerum eðlilegar kröfur um trausta velferðarþjónustu, betra menntakerfi og trausta innviði. Aukin verðmætasköpun leggur grunninn að þeirri uppbyggingu, ekki eitthvað annað. Það er mér að meinalausu að kollegar mínir á Alþingi kalli mig talibana og/eða freka kallinn í baráttu okkar fyrir bættum lífskjörum. Nái minnihlutinn, í bili, að koma í veg fyrir upbyggingu aukinnar raforkuframleiðslu verður það á pólitíska ábyrgð þeirra að verkefni sem þetta vera ekki að veruleika."
Guðbjartur Hannesson Samfylkingu og þingmaður Norðvesturkjördæmis svaraði Jóni Gunnarssyni í Skessuhorni.
„Ég vil benda á að stórkarlalegar tilraunir Jóns Gunnarssonar formanns atvinnuveganefnar til að sniðganga lög um verndun- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) hefur tafið alla ákvarðanatöku um Hvammsvirkjun. Ef það hefur áhrif á samninga Landsvirkjunar við Silicor eða á fjárfesta þá er ábyrgðin hans og fylgisveina hans. Það er lítilmótlegt að kenna öðrum um,“ sagði Guðbjartur.
Að hans sögn hefði Samfylkingin lagt áherslu á að fylgja þeim lögum og reglum sem settar hafa verið um virkjanir og nýtingu raforku og styður þá tillögu sem Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra lagði fram í október síðastliðnum um Hvammsvirkjun. Sú virkjun hafi hlotið endanlega umsögn verkefnisstjórnar rammaáætlunar sem mælir með virkjuninni í nýtingarflokk.
Guðbjartur sagði að afgreiðsla þeirrar tillögu hafi tafist í atvinnuveganefnd og ekki komið til annarrar umræðu fyrr en 1. apríl 2015 og þá með breytingartillögu nefndarinnar um að setja fimm nýja virkjunarkosti í nýtingarflokk til viðbótar við Hvammsvirkjun. „Slík hentistefna atvinnuveganefndar kastar af borðinu rammaáætluninni, sem samþykkt var samhljóða á Alþingi í maí 2011 og átti að vera leið til varanlegra sátta varðandi umfjöllun og ákvarðanatöku um nýtingu og vernd orkuauðlinda, og tefur málið. Ég hef frá upphafi fylgst með og fagnað því að undirbúningsvinnu við framkvæmdir við verksmiðju Silicor miðar vel áfram og vonandi tekst að hrinda verkefninu í framkvæmd í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir,“ sagði Guðbjartur.
Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness er ómyrkur í máli á Facebook-síðu sinni í dag. Hann skrifar: "Það er mikilvægt fyrir okkur Akurnesinga að átta okkur á þeim skemmdarverkum sem hér er hugsanlega verið að fremja. Það liggur fyrir að Samfylkingin,Vinstri grænir og Píratar neituðu að samþykkja breytingu á rammaáætlun þannig að hægt yrði að tryggja orku t.d. fyrir Sólarkísilverksmiðjuna á Grundartanga sem mun skapa 450 vel launuð gjaldeyrisskapandi störf. Þessi framkvæmd er metin á 125 milljarða og þessi skemmdarverk gera það líka að verkum að 30 milljarða stækkun á steypuskála Norðuráls sem hefði skapað 50 ný störf er sett í uppnám. Ég vil fá svör frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar í Norðvesturkjördæmi hvað þeim gangi til þegar þeir setja þessa atvinnuuppbyggingu í uppnám, atvinnuuppbyggingu sem skilar útflutningsverðmætum á við þrjár makrílvertíðir á ári hverju!
Að setja framkvæmdir í uppnám sem geta skilað íslenskri þjóð 60 til 70 milljörðum í auknum gjaldeyristekjum er grafalvarlegt mál. Það er eins og sumir stjórnmálaflokkar skilji það alls ekki að fólk þarf vinnu og sú atvinna þarf að vera gjaldeyrisskapandi, því með gjaldeyrisskapandi atvinnu náum við að bæta okkar lífsgæði og byggja og efla okkar velferðarsamfélag. Það er ekki gert með því að fjölga opinberum störfum, með fullri virðingu fyrir þeim störfum," skrifar Vilhjálmur.