06. júlí. 2015 06:01
Andstaða ákveðinna hópa við bólusetningu barna er verulegt vandamál sem verður að berjast gegn með fræðslu til foreldra og vandaðri upplýsingagjöf um mikilvægi bólusetningar. Zsuzsanna Jakab, framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu WHO (Alþjóða heilbrigðismála-stofnunarinnar) gerði þetta að umtalsefni á fundi smáríkja sem haldinn var í Andorra fyrr í þessum mánuði. Átta fámennar Evrópuþjóðir, með færri en milljón íbúa, áttu fulltrúa á fundinum þar sem saman voru komnir ráðherrar málefna sem varða heilbrigði og velferð, auk embættismanna og sérfræðinga. Í ávarpi sem Zsuzsanna Jakab flutti í upphafi fundarins lagði hún áherslu á hve stefna stjórnvalda í hverju ríki réði miklu um heilbrigði og velferð íbúanna. Með því að stuðla að jöfnuði meðal íbúanna og tryggja aðgang allra að þeim þáttum sem mikilvægastir eru fyrir velferð fólks og getu þess til að njóta sín í samfélaginu sé lagður traustur grunnur að velfarnaði þjóðar.