08. júlí. 2015 09:01
Næstkomandi laugardag, 11. júlí, verður matar- og antikmarkaður á Akratorgi og að þessu sinni verður þema markaðarins tónlist. Þar mun Björn Lúðvíksson, eða Bjössi Lú eins og hann er oftast kallaður, standa fyrir tónlistamarkaði. Bjössi er mikill áhugamaður um tónlist og síðustu ár hefur hann lagt sig fram við að safna tónlist Skagamanna saman á einn stað. Á markaðnum verður hann með um 35 titla frá ýmsum hljómsveitum og tónlistarmönnum frá Akranesi, bæði gamalt og nýtt efni og allt ónotað. Eitthvað af þeirri tónlist sem Bjössi verður með er einungis hægt að fá á þessum markaði, t.d. geisladiskurinn „To them we are only shadows“ með hljómsveitinni Worm is green. Sú plata var einungis seld á netinu en var gefin út á geisladiski fyrir þennan markað. Eins verður Bjössi með efni sem fæst ekki lengur í verslunum og er einungis til í takmörkuðu upplagi. Þetta er annað árið í röð sem Bjössi stendur fyrir svona markaði en í ár verður eitthvað meira úrval en í fyrra.