08. júlí. 2015 09:56
Makríll er nú genginn að einhverju leyti í Faxaflóa og Breiðafjörð, í það minnsta upp að ströndum Snæfellsness að vestanverðu. Í morgun lenti Emanúel Magnússon á Álfi SH í mokveiði undan Malarrifi. Í samtali við fréttaritara sagðist hann á skömmum tíma hafa fengið hundrað kíló á einungis 20 króka. Búast má við að smábátarnir fari nú á fullt til veiða. Nú hefur sjávarútvegsráðherra kvótasett makrílveiði smábáta. Þeim er á vertíðinni leyfilegt að veiða 7.026 tonn af makríl. Af tíu kvótahæstu bátum landsins eru sex þeirra á Snæfellsnesi og má Emanúel á Álfi SH sem dæmi fiska 216 tonn, eða ríflega 3% af heildarkvóta smábátanna.