10. júlí. 2015 11:01
Fimmta Snæfellsjökulshlaupið var hlaupið síðastliðinn laugardag. Voru keppendur ræstir frá Arnarstapa klukkan 12 og hlaupið yfir Jökulháls til Ólafsvíkur. Alls er hlaupið 22 kílómetrar og yfir erfiðar torfærur að fara. Til dæmis eru hlaupnir sjö kílómetrar af snjó á leiðinni sem gerði keppendum erfitt fyrir. Í þessu hlaupi voru 184 keppendur en voru 122 í fyrra og hefur keppendum því fjölgað mikið. Hjónin Fannar Baldursson og Rán Kristinsdóttir standa fyrir þessu hlaupi ásamt fjölda aðstoðarmanna. Eins þess setti unglingadeildin Drekinn frá Lífsbjörgu upp fjórar drykkjarstöðvar á hlaupaleiðinni.
Fannar sagði í samtali við Skessuhorn að hægt hafi verið að taka á móti fleiri keppendum enda væru allir sem leitað hafi verið til boðnir og búnir til að aðstoða; fyrirtæki og einstaklingar. Sagði hann að vel hafi verið stutt vel við bakið á Snæfellsjökulshlaupinu. Fannar bætti við að keppendur væru ánægðir með móttökunar þegar þeir komu í mark og mikil hvatning hafi mætt þeim við marklínuna.
Að hlaupi loknu var boðið upp á súpu og drykki og það bauð Snæfellsbær öllum keppendum frítt í sund. Fannar bætti því við að fjöldi heimamanna og brottfluttra hafi tekið þátt í hlaupinni og hafi Oddur Brynjarsson bætt met heimamanna en hann lenti í sjötta sæti í sínum flokki og í ellefta sæti í heildarkeppninni. Kári Steinn Karlsson varð fyrstur í mark á timanum 1:34:58 og í kvennaflokki sigraði Rannveig Oddsdóttir á tímanum 02:01:52.