10. júlí. 2015 12:18
Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur ákveðið að endurvekja meistaraflokkslið kvenna eftir tveggja ára hlé. Signý Hermannsdóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir og heimamaðurinn Guðrún Ámundadóttir hafa þegar gengið til liðs við félagið. Signý stefnir á að taka skóna af hillunni til að hjálpa liðinu að komast upp um deild. Hún á að baki langan og farsælan úrvalsdeildarferil og er þriðji leikjahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi. Enn fremur verður hún hluti af þjálfarateymi Skallagríms. Tilkynnt verður um aðalþjálfara síðar, segir í tilkynningu á vef Skallagríms.
Kristrún á einnig að baki langan feril í úrvalsdeild og með landsliði Íslands og hefur spilað með Val undanfarin ár. Guðrún gengur til liðs við Skallagrím frá Haukum. Þar hefur hún leikið undanfarin ár og var síðast fyrirliði liðsins. Á sínum yngri árum lék hún með Skallagrími upp alla yngri flokka félagsins áður en hún hélt suður til náms.Samanlagt hafa þær unnið til fjölmargra Íslands- og bikarmeistaratitla og munu styrkja liðið á komandi vetri.
Við sama tilefni var gengið frá samningum við þær Írisi Gunnarsdóttur, Guðrúnu Ingadóttur, Þórdísi Sif Arnarsdóttur og Sigurbjörgu Sigurðardóttur. Þær léku allar með Skallagrími þegar liðið tók síðast þátt í Íslandsmótinu.
Lið Skallagríms mun leika í fyrstu deild næsta vetur ásamt Breiðabliki, Þór Akureyri, Njarðvík og Fjölni. Fjölgað gæti í deildinni þegar nær dregur upphafi keppnistímabilsins um mánaðamót september og október.