13. júlí. 2015 09:29
Síðastliðinn laugardag var opnuð sýning á vatnslitaverkum eftir Ásdísi Arnardóttur á kaffistofunni Gamla Rifi í Snæfellsbæ. Myndirnar á sýningunni tengjast því sem hún telur bæði meðfæddan og innrættan áhuga á veðri. Þær urðu til við leit að þekktu veðurfyrirbrigði á Hekluslóðum sem ekki er lokið enn. M.a. gefur að líta seríu mynda af sama skýinu, sem unnin er með vatnslitum og bývaxi á hríspappír.
Ásdís er fædd 1963 og nam við Myndlistarskólann á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Hún er félagi í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og hefur m.a. hlotið viðurkenningu fyrir verk sín á alþjóðlegu vatnslitasýningunni Baltic Bridges.
Gamla Rif er opið alla daga kl. 12:00-20:00 og stendur sýning Ásdísar fram í miðjan ágúst.
-fréttatilkynning