15. júlí. 2015 12:49
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og fyrsti þingmaður NV-kjördæmis segir að verksmiðja Silicor Materials á Grundartanga muni bæta ímynd Íslands þegar kemur að stóriðju. „Sú ímynd er þó svo sem alls ekkert slæm fyrir,“ segir ráðherrann. Aðspurður ítrekar hann að stjórnvöld standi heilshugar á bak við þetta verkefni. „Það er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram. Ráðherrar og ríkisstjórn stefna að því að þetta verði að veruleika. Við teljum að þetta sé jákvæð viðbót við þá iðnaðaruppbyggingu sem við horfum á í dag. Þarna er komin ný tækni sem fellur vel inn í fyrirætlanir Íslendinga um að reyna að auka fjölbreytni í atvinnulífinu. Við eigum að fagna því þegar erlendir fjárfestar sýna Íslandi áhuga þegar atvinnuuppbygging er annars vegar. Við vitum að fyrirtæki vilja koma til Íslands af fjölmörgum ástæðum. Nefna má gott og vel menntað vinnuafl, tiltölulega stöðugt umhverfi og græna orku sem er til staðar. Ísland er mjög vel í stakk búið til að taka við svona verkefni. Nýir orkusamningar við ný stóriðjufyrirtæki þýða svo hærri raforkuverð fyrir ríkið í gegnum Landsvirkjun. Það er jákvætt þó við verðum líka að gæta þess að verðleggja okkur ekki útaf markaði. Við eigum ekki að virkja til að virkja heldur til að skapa verðmæti.“ Ráðherra undirstrikar að nægir virkjanakostir séu til svo að hægt verði að útvega Silicor rafmagn.
Rætt er við Gunnar Braga Sveinsson í opnuviðtali í Skessuhorni sem kom út í dag. Bæði um stóriðjuna, virkjanamál en sitthvað fleira sem brennur á íbúum á Vesturlandi og víðar.