15. júlí. 2015 09:01
Hrafnhildur Hallvarðsdóttir er nýskipaður skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Hún er frá Þingvöllum í Helgafellssveit en hefur lengi búið í Stykkishólmi. „Ég er búin að búa í hér í næstum 30 ár. Byrjaði að kenna í grunnskólanum 1987 þegar við fluttum hingað. Við ætluðum bara að vera hér í eitt ár en ég hef verið hér síðan. Maður veit aldrei hvaða hillu maður lendir á og hvar manni líkar vel,“ sagði Hrafnhildur í samtali við Skessuhorn. „Síðan færði ég mig yfir í FSN þegar skólinn var stofnaður og varð svo aðstoðarskólameistari þar árið 2012,“ bætir hún við.
Hrafnhildur segist vera uppeldisfræðingur í grunninn. Hún lauk stúdentsprófi af uppeldisbraut Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi árið 1982 og hóf í kjölfar þess nám í uppeldisfræði við Háskóla Íslands. Síðastliðið haust lauk hún meistaraprófi í stjórnun menntastofnana við þann sama skóla og viðfangsefni lokaritgerðarinnar var upplifun kennara af innleiðingu breyttra kennsluhátta í Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Nú leggur hún stund á diplómanám í stjórnsýslu.
Nánar er rætt við Hrafnhildi í Skessuhorni sem kom út í morgun.