20. júlí. 2015 09:01
Síðastliðinn föstudag var opnaður nýr veitingastaður í Stykkishólmi. Er hann við Aðalgötu, en lóðin tilheyrir reyndar Þvervegi 2. Staðurinn ber nafnið Skúrinn og eru eigendur hans Arnþór Pálsson, Þóra Margrét Birgisdóttir, Rósa Indriðadóttir og Sveinn Arnar Davíðsson. Matseðillinn samanstendur af samlokum og hamborgurum sem bera nöfn manna úr bæjarfélaginu,. Má þar nefna Björn Ásgeir svínabónda og Sigga leirloku og fiskur dagsins einfaldlega heitir Ísleifur. Einnig er hægt að fá salat og kökur og hristing eða „shake“ ásamt kaffi og drykkjum. Ljósmyndari Skessuhorns var með fyrstu viðskipavinum og líkt og aðrir gestir sem talað var við var gerður mjög góður rómur að matnum. Eigendurnir eru bjartsýnir á reksturinn og ætla að vera með opið í vetur og munu bjóða upp á rétt dagsins ásamt réttum af matseðli.