21. júlí. 2015 02:15
„Hátíðin í ár verður með svipuðu formi og verið hefur undanfarin ár,“ sagði Sigurgeir Agnarsson, sellóleikari og listrænn stjórnandi Reykholtshátíðar, í samtali við Skessuhorn fyrr í vikunni og bætti því við að mikið yrði lagt upp úr gæðum tónlistarflutnings á hátíðinni, að vanda. Reykholtshátíð hefur verið haldin óslitið frá árinu 1997 og alltaf í kringum síðasta sunnudag júlímánaðar, á vígsluafmæli Reykholtskirkju, þar sem allir tónleikarnir fara fram. „Reykholtskirkja er alveg frábær, með betri hljómandi húsum landsins, ekki spurning,“ segir Sigurgeir aðspurður um hvernig kirkjan henti til tónlistarflutnings af þessu tagi. Hátíðin er haldin í samstarfi við Snorrastofu og Reykholtskirkju. Dagskráin samanstendur því ekki eingöngu af tónleikum heldur verður fyrirlestur á vegum Snorrastofu eftir hádegi á laugardag, þar sem Páll Bergþórsson fjallar um Vínlandsgátuna, sem og hátíðarguðsþjónusta á sunnudeginum.
Tónlistin er hins vegar í aðalhlutverki. Hátíðina opnar Karlakórinn Heimir með tónleikum á föstudagskvöldi þar sem Þóra Einarsdóttir sópransöngkona verður sérstakur gestur. „Þóra leikur dálítið stórt hlutverk á hátíðinni því hún kemur einnig fram á söngtónleikum á laugardeginum ásamt Steinunni Birnu Ragnarsdóttur píanóleikara,“ segir Sigurgeir. Þeir tónleikar hafa fengið nafnið „Báran - svipmynd frá upphafi tónleikahefðar á Íslandi“ og að sögn Sigurgeirs samanstendur lagalisti þeirra tónleika af sönglögum sem voru áberandi við upphaf tónleikahalds í Reykjavík. „Báran var aðal tónleikasalurinn í Reykjavík á þeim tíma. Á tónleikunum verða flutt skandínavísk lög og lög eftir íslenska höfunda, eins og til dæmis Sigvalda Kaldalóns og fleiri, sem voru að taka sín fyrstu skref í að semja einsöngslög. Hefðirðu litið við á tónleika í Reykjavík í kringum 1900 þá eru það þessi lög sem hefðu verið á dagskránni. Kannski ekki alveg í þessu samhengi en á svipuðum nótum,“ segir Sigurgeir.
Síðari tónleikar laugardagsins eru kammertónleikar tileinkaðir lágfiðlunni, eða víólunni. Þar verður sérstakur gestur hátíðarinnar, finnski lágfiðluleikarinn Atte Kilpeläinen, í aðalhlutverki. Hann ku vera einn fremsti lágfiðluleikari Finnlands og hefur komið víða fram undanfarin ár, bæði sem einleikari og kammerleikari. „Atte verður áberandi á laugardagskvöldið, sérstaklega fyrir hlé þar sem Ástheiður Alda Sigurðardóttir mun leika með honum. Eftir hlé munu ég, Atte og Ari Þór Vilhjálmsson spila verk eftir Mozart fyrir strengjatríó. Það er kannski ekki spilað svo oft en er mjög flott verk engu að síður,“ segir Sigurgeir.
Reykholtshátíð lýkur svo með tónleikum á sunnudagseftirmiðdegi. „Þá koma allir fram sem spilað hafa á hátíðinni, fyrir utan karlakórinn auðvitað. Þórður Magnússon tónskáld hefur útsett þekkt íslensk dægurlög fyrir píanótríó sem verða flutt á þeim tónleikum, ásamt öðru efni,“ segir Sigurgeir. Einnig verður flutt verk eftir Sibelius, en árið í ár hefði markað 150 ára fæðingarafmæli finnska tónskáldsins. „Þetta verður svona bland í poka. Svo endum við á píanókvartett eftir Schumann. Það er pínu svona súkkulaðimoli, mjög fallegt verk og ætti að renna ljúflega niður,“ bætir hann við.
Sigurgeir hvetur sem flesta til að mæta á hátíðina og bendir á að miðasala fari fram á miði.is en einnig verði hægt að kaupa miða við innganginn. „Gestir Reykholtshátíðar mega búast við áhugaverðum tónleikum og alveg topp flutningi,“ segir hann að lokum.