23. júlí. 2015 12:15
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og 1. þingmaður Norðvesturkjördæmis fær kárínur frá ritstjórn Morgunblaðins í Staksteinapistli sem birtist í blaðinu í dag.
Tilefnið eru orð Gunnars Braga í viðtali við Skessuhorn í síðustu viku að Íslendingar eigi að íhuga að draga úr hvalveiðum til að mæta þannig gagnrýni á alþjóða vettvangi. Þetta verður Staksteinum tilefni til skrifa þar sem segir meðal annars:
"Í Skessuhorni í gær var sagt frá því að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra telji að Íslendingar eigi að draga úr hvalveiðum. Og vitnað er í ráðherrann sem svarar af hreinskilni: "Við hér í utanríkisráðuneytinu verðum vör við það frá fyrstu hendi á fundum sem við sækjum að Ísland er stundum litið hornauga vegna þessara veiða."
Fulltrúum íslenska ríkisins á alþjóðlegum ráðstefnum eru greidd laun til að þola það að vera litnir hornauga. Ef það dugar ekki verður einfaldlega að kaupa þessa þjónustu utan úr bæ og fela verktökum með skýr fyrirmæli um að kynna hagsmuni Íslands," skrifa Staksteinar meðal annars í pistli dagsins.