23. júlí. 2015 01:35
Þann 23. júlí í fyrra, þann sama dag og í dag, höfðu alls 77 smábátar stundað makrílveiðar það sem af var sumri og alls aflað 1.045 tonna. Samkvæmt yfirliti Fiskistofu nú þá hafa aðeins fimm smábátar haldið til veiða það sem af er sumri í ár. Þeir hafa landað rétt rúmum 16 tonnum á landsvísu. Þetta eru mikil viðbrigði samanborið við sama tíma í fyrra.
Samkvæmt yfirliti Fiskistofu hafa aðeins þrír smábátar frá Vesturlandi sótt makrílafla í greipar Ægis það sem af er sumri. Þetta eru Brynja II SH sem hefur aflað 8.358 kílóa, Sæhamar SH með 3.172 kíló og Andri SH með 642 kíló. Á sama tíma í fyrra höfðu 23 bátar af Vesturlandi hafði makrílveiðar og alls aflað 380 tonna. Hvað varðar smábátana þá er því það sama uppi á teningnum á Vesturlandi og á landinu sem heild.
Stóru skipin hafa aflað betur. Heildarafli þeirra um 35 þúsund tonn það sem af er. Á sama tíma í fyrra voru þau hins vegar búin að veiða um 50 þúsund tonn samkvæmt vef Fiskistofu. Afli þeirra það sem af er vertíð nú er þannig um 15 þúsund tonnum minni en á sama tíma í fyrra. Segja má að um þriðjungi minni makrílafli hafi borist á land það sem af er þessari vertíð samanborið við 23. júlí í fyrra.
Heildar aflaheimildir íslenskra skipa í makríl nú í ár eru 179 þúsund tonn þannig að enn er mjög mikið óveitt ef kvótinn á að nást.
Enn virðist mikil óvissa ríkja um sölu- og markaðsmál á makríl. Fiskifréttir greina frá því að talsverðar verðlækkanir hafi orðið á alþjóðlegum mörkuðum. Þykir margt benda til að mikið verðfall verði á makríl í ár enda alvarlegar blikur á lofti í markaðsmálum.