28. júlí. 2015 08:00
„Þessar verbúðir sem verið er að grafa upp núna eru frá 15. öld en byggð hefur verið á Gufuskálum mikið lengur, sennilega frá landnámi og alltaf byggst á sjósókn,“ sagði Lilja Pálsdóttir, fornleifafræðingur við Fornleifastofnun Íslands ses, þegar blaðamann Skessuhorns bar að garði. Hópur fornleifafræðinga á vegum Fornleifastofnunar Íslands ses vinnur nú við uppgröft við Írskrabrunn, rétt austan við Gufuskála, í samvinnu við City University of New York og Stirling-háskólann í Skotlandi.
Að sögn Lilju hefur hópurinn þegar fundið ýmislegt sem geti bent til þess að fólk í verbúðum hafi hreint ekki haft það jafn slæmt og almennt hefur verið talið. Verbúðirnar voru einnig að öllum líkindum staðir þar sem fjöldi fólks kom saman, bæði karlar, konur og börn, auk þess sem erlendir kaupmenn og farmenn komu með skipum.
„Miðað við til dæmis þau dýrabein sem við höfum fundið þá borðaði þetta fólk besta kjöt sem völ var á, dýrustu bitana. Kindur sem aðeins voru aldar fyrir kjötið,“ segir hún. „Hér hafa einnig fundist fjölmargir fallegir gripir. Bæði heimagerðir, úr beinum og tré, en einnig innfluttir gripir, taflmenn og kopargripir. Nýlega fundum við koparhring, alveg heilan sem hefur verið með steini og fleiri skrautmuni úr kopar. Við túlkum það sem svo að hér hafi líka búið konur, ekki aðeins karlar,“ bætir hún við.
Blaðamaður Skessuhorns heimsótti fornleifauppgröftinn á Gufuskálum og lesa má um það hvers hann varð vísari í viðtali við Lilju Pálsdóttur í blaðinu sem kemur út í dag. Þar eru líka myndir af minjum sem hafa fundist nú í sumar.