29. júlí. 2015 11:00
Bæjarráð Stykkishólms samþykkti á síðasta fundi sínum 23. júlí, bókun um ferðamál. Þar segist bæjarráðið fagna þeim mikla vexti sem nú er í ferðaþjónustu í Stykkishólmi. Sérstaklega er komum skemmtiferðaskipa til bæjarins fagnað.
Bæjarráðið skorar á heimamenn í ferðaþjónustu að taka höndum saman um að kynna bæinn frekar og stuðla að fegrun hans og góðri þjónustu. Alþingi, ráðherra ferðamála og önnur ferðamálastjórnvöld eru hvött til þess að leggja aukna fjármuni til uppbyggingar fjölfarinna ferðamannastaða. Auðvelda verði minni sveitarfélögum að byggja upp ýmsa þá inniviði sem þurfi til.
Að lokum hvetur bæjarráð Samband íslenskra sveitarfélaga til þess að taka þessi málefni sérstaklega upp í viðræðum við ríkisvaldið og efna til ráðstefnu þar sem einungis verið fjallað um uppbyggingu ferðaþjónustu og aðkomu sveitarfélaga og ríkisvaldsins í æskilegri þróun þessa mikilvæga atvinnuvegar sem ferðaþjónustan er.