30. júlí. 2015 12:01
Illa horfði um stund með uppsjávarskipið Birting NK þar sem það lá bundið við bryggju í Reykjavíkurhöfn í gærkvöldi.
Laust eftir klukkan 19:00 tóku vegfarendur við höfnina eftir því að þykkan svartan reyk lagði upp frá hvalbak skipsins. Það var jafnframt mjög sigið aftantil stjórnborðsmegin og lá með mikla slagsíðu á það borð.
Lögregla, sjúkrabílar og slökkvilið voru kölluð til. Skömmu síðar kom dráttarbáturinn Jötunn á vettvang. Stefni hans var strax sett á stjórnborðshlið Birtings og vélar Jötuns keyrðar af afli svo hjálpa mætti til við að halda fiskiskipinu á réttum kili. Á sama tíma var dælt sjó í tanka Birtings til að rétta skipið af. Síðar um kvöldið náðist að koma jafnvægi á skipið, sú hætta sem virtist vofa yfir leið hjá, og Jötunn dró sig í hlé.
Birtingur var í Reykjavíkurhöfn á leið til Grænlands þar sem skipið hafði verið leigt til rannsókna á makríl. Ekki er vitað hvort skemmdir hafi orðið á skipinu. Birtingur hét áður Börkur NK og þekktur sem eitt aflasælasta fiskiskip íslenska flotans.
Myndir af þessu atviki má sjá með því að fletta í möppuni hér fyrir ofan. Þær voru teknar af Magnúsi Þór Hafsteinssyni blaðamanni Skessuhorns sem var í fréttaleit á hafnarsvæðinu þegar þetta gerðist.