31. júlí. 2015 08:30
Nú fer verslunarmannahelgin í hönd, stærsta ferðahelgi sumarsins. Síðar í dag leggur fjöldi landsmanna land undir fót og heldur í útilegu, sumarbústaði eða á skemmtanir.
Ferðalangar eru minntir bílbeltin og hvattir til að festa farangur sinn niður, sé hann geymdur í farþegarými. Enn fremur eru þeir hvattir til að virða hámarkshraða á þjóðvegum landsins og sleppa framúrakstri ef ekið er í þungri umferð og löngum bílaröðum. „Það eina sem fengið er með þeim framúrakstri, er hættan sem af honum hlýst. Betra er að láta þolinmæði og tillitsemi ráða för,“ segir í frétt á vef vis.is.
Þeir ferðalangar sem hyggjast neyta vímugjafa við skemmtanir eru enn fremur hvattir til að gefa sér góðan tíma áður en lagt er af stað heim á leið til að líkaminn geti hreinsað sig af vímugjafanum. „Ef áfengi eða önnur vímuefni eru höfð um hönd er einn þáttur sem margir flaska á; að leggja of snemma af stað næsta dag. Langan tíma tekur fyrir líkamann að brjóta þau niður og getur tímalengdin verið mjög mismunandi milli einstaklinga. Þumalputtareglan er t.d. að fyrir hvern einfaldan áfengandrykk sem drukkinn er þá tekur það líkamann a.m.k. eina klukkustund að losa sig við hann eftir að drykkju er hætt.“
Ferðamenn eru hvattir til að hafa þetta í huga því akstur undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa getur haft skelfilegar afleiðingar.
„Ef vínandamagn í blóði mælist 0,5 til 0,6 prómill í blóði, sem er lægsta gildi sem er sektað fyrir, þá er sektin kr. 70.000.- ásamt ökuleyfissviftingu í 2 mánuði. Það er þó lítið á móts við ef líkamstjón eða janfvel banaslys verður en 30% banaslysa hér á landi verða þegar ökumaður er undir áhrifum. Eins geta tryggingafélögin átt rétt á endurkröfu á viðkomandi. Hlutfall endurkrafna vegna ölvaðra ökumanna árið 2012 var t.a.m. 67%. Hæsta endurkrafan var 4 milljónir og áttu ökumenn, 25 ára og yngri, 44% allra endurkrafna,“ segir í fréttinni.