31. júlí. 2015 02:00
Aflaverðmæti afla upp úr sjó í apríl síðastliðnum nam samtals 10 milljörðum króna. Það er 8,8% minna en í sama mánuði í fyrra. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.
Mest var verðmæti þorsks, 3,8 milljarðar króna og hefur dregist saman um 7,2% síðan í fyrra.
Verðmæti afla upp úr sjó á tólf mánaða tímabili, frá maí 2014 til apríl 2015, hefur hins vegar aukist um 7% miðað við sama tímabil árið þar áður. Rúmlega fjórðungs aukning, eða 26,3% er á verðmæti uppsjávarafla og munar þar mest um loðnu og kolmunna. Einnig segir á vef Hagstofunnar að verðmæti þorsks hafi aukist um 14,1 prósentustig.
Aflaverðmæti með tilliti til verkunarstaðar dróst mest saman á Vesturlandi í apríl síðastliðnum miðað við sama tíma í fyrra, eða um heil 47% og er það mesti samdráttur á landinu.
Verðmæti afla sem verkaður er á Vesturlandi hefur hins vegar aukist á ársgrundvelli. Þegar miðað er við tólf mánaða tímabilið frá maí 2014 til apríl 2015 nemur aukning aflaverðmæta 12,1% miðað við sama tímabil árið áður.