06. ágúst. 2015 08:00
Veitingastaðurinn Bjargarsteinn í Grundarfirði opnaði loksins eftir langa bið föstudaginn 31. júlí síðastliðinn. Ætlunin var að opna fyrir bæjarhátíðina „Á góðri stund“ en ekki fékkst leyfi í tæka tíð. Það fór svo að lokum að eldhúsið og salurinn var opnaður þennan föstudag.
Veitingahúsið er hið glæsilegasta á að líta. Elsti hlutinn eða húsið sem er rúmlega aldar gamal íbúðarhús sem flutt var frá Akranesi, er að sögn fréttaritara Skessuhorns í Grundarfirði virkilega fallegt bæði að innan sem og utan. Innréttingar á staðnum eru í svipuðum stíl og mynda afslappað og þægilegt andrúmsloft. Fyrstu matargestir sem sóttu Bjargarstein heim létu vel að matnum og staðnum. Hinn nýi Bjargarsteinn er kærkomin viðbót í veitingahúsaflóru Snæfellsness.