13. ágúst. 2015 08:01
Nú í sumar hefur Orkuveita Reykjavíkur staðið fyrir vinnu við fráveitu á skólpi frá Akranesi. Verið er að ganga frá sjólögn sem liggur frá hreinsunarstöð út í sjó auk fleiri þátta. Áður var búið að vinna svipaðar framkvæmdir á Kjalarnesi. Snemma næsta vor verður röðin síðan komin að Borgarnesi. Árni Geir Sveinsson er staðarstjóri verktakafyrirtækisins Ístak á Vesturlandi sem er helsti verktaki framkvæmdanna fyrir Orkuveituna. „Það voru byggðar hreinsistöðvar hér á Akranesi, í Borgarnesi og á Kjalarnesi á árunum 2008 og 2009. Hér á Akranesi var líka unnið í að endurbæta allar lagnir, bæði þrýstilagnir og frárennslislagnir. Á þessum árum byggðum við líka dælustöðvar við Leyni, hér á Ægisbraut og við Faxabraut rétt hjá höfninni,“ segir Árni Geir þar sem blaðamaður Skessuhorns hitti hann á vinnusvæðinu við Ægisbraut á Akranesi.
Þessar miklu frárennslisframkvæmdir á Akranesi, í Borgarnesi og á Kjalarnesi stöðvuðust hins vegar í efnahagshruninu sem skall á af þunga haustið 2008. Þá lenti Orkuveitan eins og kunnugt er í miklum fjárhagsörðugleikum. „Það má segja að allt kerfið hér á Akranesi hafi verið gert klárt og hafi staðið tilbúið í ein fimm ár, nema fjórða og síðasta dælustöðin sem átti eftir að setja niður neðanjarðar á bökkum Krókalóns við Vesturgötu. Þar töfðust málin vegna deilna við lóðareigendur og Akranesbær þurfti að fara í málarekstur sem sneri að eignarnámi. Það er búið að leysa þau mál núna,“ segir Árni.
Hið nýja frárennsliskerfi Orkuveitunnar bæði á Akranesi, í Borgarnesi og á Kjalarnesi á að standa fullbúið í árslok 2016.
Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.