31. ágúst. 2015 03:29
Flutningaskipið Winter Bay kom til hafnar í Osaka í Japan síðastliðinn sunnudag. Ferðin sóttist vel en reiknað var með því að það yrði komið til hafnar í Japan í byrjun september, eða viku síðar en raunin varð. Skipið lagði af stað frá Tromsö í Noregi um síðustu mánaðamót og sigldi norðausturleiðina áleiðis til Japan. Var þetta í fyrsta sinn sem siglt var með íslenskar sjávarafurðir þessa leið og var siglingin um norðurhöfin því tímamótaferð í gegnum siglingaleið Íshafsins norður fyrir Rússland, um Beringssund áleiðis til Kyrrahafs og þaðan til Japan. Að sögn Japanskra fjölmiðla var skipinu siglt þessa leið til að forðast mótmælendur og dýraverndunarsinna. Skipið sigldi með fullfermi af hvalkjöti eða 1800 tonn af langreyðarkjöti frá Hvali hf.