10. febrúar. 2005 04:54
Lögreglan á Akranesi hefur verið iðin við umferðareftirlit í Hvalfjarðargöngum í framhaldi af samstarfssamningi við lögregluna í Reykjavík, sem nýlega var greint frá í Skessuhorni. Athygli vekur að margir ökumenn virðast gefa hressilega í á milli hraðamyndavélanna sem staðsettar eru í göngunum og hafa m.a. á síðustu dögum tveir ökumenn verið kærðir fyrir að aka í Hvalfjarðargöngum á 118 km/klst hraða. Hámarkshraði í göngum er 70 km/klst þannig að í þessum tilfellum er ekið með 48 km/klst hraða yfir hámarkshraða. Mega þessir ökumenn gera ráð fyrir að fá 40.000 króna reikning inn um bréfalúguna á næstu dögum.