09. september. 2015 10:35
Leiðindaveður var í morgun í Ólafsvík og hafði þá heldur bætt í vind frá því í nótt. Klukkan sjö í morgun fóru vindhviður í 40 metra á sekúndu. Engar alvarlegar skemmdir hafa orðið en lauslegir hlutir hafa færst úr stað og þá losnaði klæðning og þakkantur af húsum. Að sögn Viðars Hafsteinssonar formanns björgunarsveitarinnar Lífsbjargar var nóttin róleg og enginn útköll fyrr en um áttaleytið þegar klæðning fór af hluta húss í Ólafsvík. „Þetta er bara að byrja núna,“ sagði Viðar en bætti við að hann var þá staddur í Rifi og að þar væri bara blíða. Skólaakstri frá Ólafsvík var frestað í morgun en ekið var af stað þegar líða tók á morguninn.