10. september. 2015 03:13
Skagastúlkurnar Aníta Sól Ágústsdóttir og Bryndís Rún Þórólfsdóttir hafa verið valdar í hóp U19 ára landsliðs Ísland sem fer til Sviss dagana 15.-20. september næstkomandi og tekur þátt í undankeppni Evrópumótsins 2016.
Aníta og Bryndís eru báðar fæddar árið 1997 en hafa þrátt fyrir ungan aldur verið fastamenn í liði ÍA í sumar. Þær léku alla leiki liðsins í 1. deildinni sem og í úrslitakeppninni. Báðar léku þær 90 mínútur þegar ÍA tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni þrátt fyrir 2-1 tap á móti Grindavík miðvikudaginn 9. september síðastliðinn.
Í þessari umferð undankeppni Evrópumótsins verður leikið í ellefu fjögurra manna riðlum og er Ísland í riðli með Georgíumönnum, Grikkjum og Svisslendingum. Tvö efstu liðin úr hverjum riðli fara sjálfkrafa áfram í næstu umferð undankeppninnar sem leikin verður næsta vor, 5.-10 apríl. Eftir síðari umferð undankeppninnar kemur í ljós hvaða átta lið tryggja sér þátt í lokakeppninni sem fer fram í Slóvakíu 19.-31 júlí.