17. september. 2015 02:04
„Við erum búnar að spila saman síðan við vorum 16 ára,“ sögðu markvörðurinn Morgan Glick og varnarmaðurinn Megan Dunnigan, en þær gengu til liðs við kvennalið ÍA í vor og léku með því í sumar. Þær eru báðar frá Texas og spiluðu saman með liði Stephen F Austin State í bandaríska háskólaboltanum. Aðspurðar hvernig það kom til að þær ferðuðust yfir hálfan hnöttinn til að leika með ÍA í sumar segja þær að þjálfari þeirra í háskólanum hafi komið því í kring. „Þjálfarinn okkar fór að spyrjast fyrir innan liðsins hverjar okkar hefðu áhuga á að fara eitthvað og spila. Við áttum ekkert endilega von á því að fá að fara eitthvað. En þegar tækifærið bauðst þá stukkum við á það,“ segja þær. Úr varð að Þórður Þórðarson þjálfari sótti þær út á Keflavíkurvöll innan við tveimur dögum áður en tímabilið hófst og tilkynnti þeim þá og þegar að þær myndu báðar byrja í fyrsta leik.
„Morgan spilar náttúrulega í marki svo ég átti alveg eins von á að hún myndi byrja en það kom mér á óvart að ég myndi byrja. Þá voru nokkrir mánuðir síðan við spiluðum leik síðast,“ segir Megan og viðurkennir að þær hafi verið örlítið ryðgaðar og fyrsti leikurinn hafi verið erfiður.
Síðan þá hafa þær leikið vel á tímabilinu. Liðið fékk aðeins á sig 5 mörk í 15 leikjum og auk þess skoraði Megan sex mörk, þrátt fyrir að hafa leikið sem bakvörður í allt sumar. Hún skoraði meðal annars í síðari undanúrslitaleiknum á móti Grindavík og markið sem skildi ÍA og FH að í úrslitaleik 1. deildarinnar síðastliðinn laugardag. „Ég hef aldrei skorað mikið af mörkum,“ segir Megan „en það er gaman að skora, hressandi og skemmtilegt,“ bætir hún við og brosir.
Nánar er rætt við þær stöllur í Skessuhorni vikunnar.