18. september. 2015 06:01
Á dögunum festi byggingafyrirtækið SÓ húsbyggingar kaup á sögufrægu húsi við Borgarbraut 7 í Borgarnesi. Húsið hefur í daglegu tali ýmist gengið undir nafninu 1919 með skírskotun í byggingarár þess, eða Skverhöllin. Síðara nafnið er til komið vegna þess að Magnús Jónasson, sem byggði húsið eftir að hann lauk húsgagnasmíðanámi í Reykjavík, hafi oft ætlað að „skvera“ hlutunum af. Hann seldi meðal annars bílaeldsneyti af tanki sem lengi stóð við húsið. Íbúum í Borgarnesi hefur um nokkurt skeið fundist nauðsynlegt að þetta hús verði fært í betra horf enda á áberandi stað og var lengst af prýði í bæjarmyndinni. Húsið hefur í seinni tíð verið í niðurnýðslu, Arionbanki eignaðist það loks en bankinn hefur nú selt SÓ húsbyggingum.
„Við ætlum að gera húsið upp og innrétta þar tvær íbúðir sem verða seldar. Upphaflega var þetta byggt sem einbýlishús og var lengst af þannig en í seinni tíð voru í því tvær íbúðir. Á næstu mánuðum verður unnið að því að gera við ytra byrði hússins og koma því í upprunalegt horf. Þegar því verki verður lokið verður hafist handa við að endurinnrétta húsið,“ sagði Jóhannes Freyr Stefánsson framkvæmdastjóri SÓ húsbygginga í samtali við Skessuhorn.