22. september. 2015 02:31
Alls urðu átta umferðaróhöpp í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi í liðinni viku, flest voru þau minniháttar. Tveir ökumenn voru gripnir við akstur undir áhrifum áfengis. Vegna óveðurs þá fuku tveir húsbílar útaf á Snæfellsnesi. Sá fyrri fauk út af Útnesvegi við Syðri Knarrartungu miðvikudaginn 16. september. Í honum voru erlendir ferðamenn, tvær fullorðnar konur og tvö börn. Hlaut fólkið nokkur meiðsli og var það flutt á sjúkrahús. Hinn húsbíllinn fauk útaf veginum í Kolgrafafirði á Snæfellsnesi síðdegis á laugardaginn. Fór bíllinn heilan hring utan vegar og lenti að endingu á hjólunum. Þá hafði húsið rifnað af honum og stýrishúsið var nánast eitt eftir á grindinni. Erlend hjón voru í bílnum og sluppu þau lítið meidd sem þykir mikil mildi.
Það voru erlendir ferðamenn sem voru á þessum húsbílum, sem þeir höfðu tekið á leigu. Að sögn lögreglu gerði fólkið sér enga grein fyrir þeim veðurfarslegu aðstæðum sem geta ríkt hérlendis. „Spyrja má hvort að hægt sé að upplýsa þá betur með einhverjum hætti á þessari tækniöld. Víða erlendis eru gagnvirk gps tæki í bílum þar sem kemur t.d. fram að unnið sé að vegaframkvæmdum og því sé betra að fara aðra leið. Við Íslendingar þurfum að skoða þessi mál,“ segir Theódór Þórðarson hjá embætti Lögreglunnar á Vesturlandi.