07. október. 2015 09:01
Nígería er stærsti markaður íslenskra framleiðenda á þurrkuðum fiskhausum og hryggjum. Þrjú slík fyrirtæki eru á Vesturlandi. Í sumar og haust hafa fréttir borist af því að markaðsaðstæður í Nígeríu hafi versnað til mikilla muna. Gjaldeyrisskortur ríkir í landinu í kjölfar mikillar lækkunar olíuverðs á heimsmarkaði auk þess sem pólitískur órói hefur verið í landinu. Af þessum sökum hafa margir framleiðendur kvartað yfir söluerfiðleikum og jafnvel eru dæmi um uppsagnir starfsfólks í fiskþurrkunarfyrirtækjum vegna þessa.
Laugafiskur á Akranesi sem eru í eigu HB Granda er eitt fyrirtækjanna á Vesturlandi. Þrátt fyrir erfiðleika í Nígeríu þá hefur HB Granda tekist að selja sínar afurðir á Nígeríumarkaði. „Það er þó ljóst að verðin hafa lækkað samfara minni kaupgetu,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda.
Fyrirtækið glímir einnig við söluerfiðleika á frystri síld og makríl í kjölfar þess að Rússlandsmarkaður lokaðist vegna viðskiptabanns fyrr í sumar. „Við erum með mikið af makríl og síld í birgðum sem hefði að óbreyttu átt að fara á Rússlandsmarkað. Við erum nú að að koma þessu í sölu annað. Stóra spurningin er hins vegar spurning þau verð sem fást fyrir þessar afurðir á öðrum mörkuðum. Það blasir við að við erum að sjá fram á mun lægri verð en við fengum á Rússlandsmarkaði,“ segir Vilhjálmur. Hann segir að sáralítið af síld og markíl hafi verið selt til Asíumarkaða, svo sem til Japan.