12. október. 2015 09:01
Á fjórða hundrað björgunarsveitarmanna frá yfir 30 björgunarsveitum af landinu voru um síðustu helgi á landsæfingu björgunarsveita sem haldin var í Eyjafirði. Þar fékkst fólkið við að leysa ólí verkefni til að æfa handbragð sem björgunarsveitarfólk þarf að kunna skil á. Umfang æfingarinnar var mjög mikið og til að mynda voru 60 sérfróðir umsjónarmenn verkefna og tugir sjálfboðaliða sem gerðu aðstæður eins raunverulegar og framast var unnt. Björgunarsveitarhópar leystu þannig ólík verkefni. Til dæmis að að keyra þrautabrautir, bjarga fólki úr flugvélarflaki, hlúa að slösuðu fólki, æfa leitaraðferðir, bjarga fólki úr sjálfheldu og svo mætti lengi telja. Æfing af þessari stærðargráðu krefst mikils undirbúnings en þykir nauðsynleg til að gefa nýliðum jafnt sem reyndu björgunarsveitafólki tækifæri til æfinga við sem raunverulegastar aðstæður.