Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Smáauglýsingar

3ja herb Íbúð á Bifröst

3ja herb íbúð,, 65,4 fm. til leigu á Bifröst Íbúðin getur verið laus mjög fljótlega Upplýsing...
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
12. október. 2015 10:21

Bjarni kynnir Íslenska sláttuhætti á miðvikudagskvöld

Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri hyggst kynna nýútkomna bók sína, Íslenska sláttuhætti, í Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri, miðvikudaginn 14. október klukkan 20.  Þar verður auk þess boðið upp á léttar, en vínlausar veitingar.  Í viðtali sem birtist við Bjarna í síðasta Skessuhorni var sagt frá því að kynningin í safninu færi fram á þriðjudagskvöld, annað kvöld. Búið er að seinka kynningunni um einn dag vegna mikils framboðs afþreyingar í héraðinu á þriðjudagskvöldinu.

Í bók sinni rekur Bjarni sögu sláttuamboða og sláttuhátta frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Reynt er að leiða að því líkur hvernig þau áhöld hafi verið sem landnámsmenn hófu að nota hér og þróuðust hérlendis. „Þeirri sögu lýkur svo með sláttuvélum nútímans, sem slá á við 200-300 sláttumenn gamla tímans,“ segir Bjarni í samtali við Skessuhorn og bætir því við að bókin fjalli í raun um slátt með tvennum hætti. „Annars vegar er það áhalda- og amboðafræðin, sagt frá þeim áhöldum sem notuð voru við slátt og þeim sem notuð voru til að halda sláttutækjum í lagi, brýnum, hverfisteinum og slíku. Síðan er sagt frá ýmsum siðum og venjum í sambandi við sjálfan sláttinn. Það snýr þá að því hvernig menn báru sig að, hvað til dæmis þrælasláttur var, hvernig var að slá ísastör eða lauf, svo við tökum dæmi,“ sagði Bjarni í samtali við Skessuhorn.

 

„Þetta á að vera alþýðufræðilegt með texta og fjölda mynda, læsilegt fyrir alla sem hafa á viðfangsefninu áhuga. Ekki nein djúpvísindi en byggt er á munnlegum og rituðum heimildum og ekki síður á hinu gagnmerka þjóðháttasafni Þjóðminjasafnsins, sem ég fékk aðgang að. Líka hef ég kannað gömul amboð í nokkrum söfnum og í einkaeigu,“ segir Bjarni þegar blaðamaður spyr hann hvort um fræðilegt rit sé að ræða. „Dálítið er gert af því að draga upp samlíkingar við það hvernig þetta var með nágrannaþjóðum. Auk þess eru raktir stórir atburðir þessarar sögu, eins og til dæmis þegar Torfi Bjarnason í Ólafsdal kemur með enskan ljá til Íslands, þann sem síðar var kallaður bakkaljár, en hann gjörbreytti allri vinnu við sláttinn því afköstin uxu til muna, og svo aftur þegar hinn alþekkti Eylandsljár, kenndur við Árna G. Eylands, kom til landsins úr smiðju Brusletto á Geilo í Noregi,“ segir Bjarni. Eylandsljáinn segir hann vera þann sem flestir núlifandi Íslendingar tengi við slátt með orfi og ljá. „Ef þú finnur gamlan ljá í geymslu hjá afa þínum og ömmu í sveitinni þá er langlíklegast að það sé gamall Eylandsljár,“ segir hann. Þá er líka sagt frá sláttuvélum m.a. þeirri einu, að segja má, sem smíðuð hefur verið hér á landi, og hét Tyrfingur.

 

„En til að gera langa sögu stutta er sláttur verk sem þorri manna var bundinn við meira og minna frá tólftu viku sumars og fram til gangna, og orfið ásamt árinni lífsnauðsynlegasta áhald þjóðarinnar hér á árum áður,“ segir Bjarni að lokum.

 

Það skal loks ítrekað að Bjarni mun kynna bókina í Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri miðvikudaginn 14. október kl. 20.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is