15. október. 2015 10:01
Dansk-íslenska tríóið Almatra mun leika í Akranesvita sunnudaginn 18. október kl. 17. Tríóið leikur melódískan, frískotinn jazz undir áhrifum frá norrænni þjóðlagahefð og samanstendur efnisskráin af útgáfum hljómsveitarmeðlima af sálmum og þjóðlögum i bland við eigin tónsmíðar. Hljómheimurinn er margbreytilegur, allt frá ambient tónlist nútímans til þjóðlagatónlistar fyrri alda og mun ómur vitans bæta annarri vídd í upplifunina. Tríóið skipa: Benjamin Kirketerp á bassa, Snæbjörn Gauti Snæbjörnsson á saxófón og Troels Buur Jensen á gítar. Aðgangseyrir er 1000 kr. en enginn posi er á staðnum. Tónleikarnir standa yfir í um það bil klukkustund. Vert er að taka fram að lítið er um sæti í vitanum en gestir eru hvattir til að ganga um og upplifa tónlistina.
-fréttatilkynning