27. október. 2015 06:01
Föstudaginn 30. október verður haldin fjölskyldusöngstund á Bókasafni Akraness í tengslum við menningarhátíðina Vökudaga, en söngstundirnar hafa verið haldnar á Vökudögum frá árinu 2011. Að sögn Valgerðar Jónsdóttur tónmenntakennara, sem hefur umsjón með viðburðinum, er söngstundin ætluð 2-10 ára börnum í fylgd með fullorðnum, en allir eru þó hjartanlega velkomnir. „Sungin verða ýmis lög sem flestir ættu að kannast við. Börn úr Skólakór Grundaskóla aðstoða við sönginn. Söngstundin stendur frá kl. 18 til 18.30,“ segir Valgerður.
Þess má geta að Fjölskyldusöngstundirnar hlutu styrk frá Akraneskaupstað á þessu ári og verða fleiri söngstundir haldnar síðar í vetur. Aðgangur á þær er ókeypis.