06. nóvember. 2015 12:01
Framleiðendur af snæfellskum mat héldu heimamarkað í Sjávarsafninu í Ólafsvík um helgina. Sem dæmi um afurðir úr héraði mátti þar finna selspik, kartöflur, gulrótarköku, egg, hákarlalýsi, birkireykta lúðu, kýrhakk, kálfakjöt, kýrhamborgara, reykta nautatungu, hjónabandssælu, harðfisk, hákarl, sæhvannarpestó, birkireyktan rauðmaga, síld og margt fleira. Var markaðurinn prýðilega sóttur af gestum.
Kristinn Kristinsson sjávarlíffræðingur sem starfar hjá Rannsóknasetrinu Vör var einn þeirra sem þátt tóku í markaðinum. Hann sagði í samtali við fréttaritara að gestir hafi skipt hundruðum og bætti við að mjög góð sala hafi verið hjá þeim sem kynntu vörur sínar. Það var Svæðisgarðurinn Snæfellsness sem stóð fyrir þessari kynningu sem tókst með afbrigðum vel, að sögn aðstandenda. Var ekki annað að sjá á gestum að þeim líkaði vel það sem boðið var uppá en auk heimafólks voru fjölmargir erlendir ferðamenn sem smökkuðu á þeim mat sem í boði var.