16. febrúar. 2005 04:48
Bíll fór útaf veginum við afleggjarann að Stóru Skógum í Stafholtstungum um klukkan 16:30 í dag. Ekki urðu slys á fólki en bíllinn fór útaf eftir að hafa lent aftan á öðrum bíl sem þurfti að snögghemla vegna vegaframkvæmda sem í gangi eru á þessum slóðum. Að sögn eins farþegans í bílnum sem fór útaf, eru aðstæður til aksturs afar slæmar á þessum stað. Nú er unnið að lagningu nýs vegar frá Gljúfurá og uppfyrir Munaðarnes og á því umferð að vera hægari af þeim sökum. Snjór torveldar hinsvegar að hægt sé að sjá varúðarmerkingar á skiltum og þegar það fer saman við lélegt skyggni, hálku og ofankomu er full ástæða til að hvetja ökumenn til að fara varlega.