02. janúar. 2016 08:01
Afgreiðslu Orkuveitu Reykjavíkur í Borgarnesi var lokað nú um áramótin. „Þjónustustigið á vef Orkuveitunnar er orðið það hátt og fólk farið að nota hann í svo miklum mæli að það er ekki talin þörf á því lengur að hafa sérstaka afgreiðslu í Borgarnesi. Þessu fylgja þó engar uppsagnir þar, við skipuleggjum okkur einfaldlega örðuvísi en verið hefur,“ segir Eiríkur Hjálmarsson upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar í samtali við Skessuhorn. Samhliða þessu verður afgreiðslu fyrirtækisins í Hveragerði einnig lokað. Einnig verða gerðar breytingar á afgreiðslutíma þar sem áfram verður opið. Þannig verður afgreiðsla Orkuveitunnar á Akranesi opin frá klukkan 13:00 til 16:30 alla virka daga. Þjónustuvakt Orkuveitu Reykjavíkur verður svo opin allan sólarhringinn, alla daga ársins í síma 516 6000.