Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. janúar. 2016 06:01

Segir sjómenn tilbúna í verkfallsátök

Í lok nýliðins árs hélt sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness aðalfund sinn. Eðli málsins samkvæmt var staða kjara- og hagsmunamála sjómanna efst á dagskrá enda hafa sjómenn verið án samnings í rétt tæplega fimm ár. Að sögn Vilhjálms Birgissonar formanns VLFA hefur djúpstæður ágreiningur verið milli samningsaðila en ein af aðalkröfum útvegsmanna hefur verið að sjómenn tækju þátt í aukinni kostnaðarhlutdeild í veiðigjöldum, tryggingagjöldum og kolefnisgjaldi. Sú krafa útvegsmanna myndi þýða að laun sjómanna gætu lækkað um 10-15% ef gengið yrði að henni. Viljálmur segir kröfuna bera vott um óbilgirni og ósanngirni, sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að afkoma sjávarútvegs hefur aldrei verið jafn góð og á undanförnum árum. „Sem dæmi þá liggur fyrir að arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsins námu 13,5 milljörðum króna á árinu 2014 og rúmum 11 milljörðum árið 2013. Þessu til viðbótar hafa skuldir sjávarútvegsins hríðlækkað á undanförnum árum eða um 153 milljarða sem gerir 31% frá árinu 2009,“ segir Vilhjálmur.

 

 

Á aðalfundi sjómannadeildarinnar kom fram að sjómenn telja öryggi sínu ógnað með þeirri fækkun sem er að eiga sér stað í áhöfnun fiskiskipa. Telja þeir brýnt að hvergi verði kvikað frá þeirri kröfu að tryggð verði lágmarksmönnun um borð í skipunum. Vilhjálmur Birgisson bendir á að hagnaður sjávarútvegsfyrirtækja og arðgreiðslur til eigenda hafi stóraukist en auk þess hafa rekstrarskilyrði sjávarútvegsins einnig batnað og nefnir í því samhengi að olíuverð árið 2015 hafi verið 44% lægra að meðaltali en það var árið á undan. „Þrátt fyrir þessar staðreyndir og mikinn hagnað sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum árum þá hafa útgerðarmenn gert þessa óbilgjörnu kröfu á íslenska sjómenn. Það gætir mikillar gremju á meðal sjómanna í þessari kjaradeilu enda er þolinmæði þeirra á þrotum. Meginkrafa sjómanna er að þeir fái bætur vegna afnáms sjómannaafsláttar en hann var tekinn af sjómönnum í þrepum. Einnig er krafa frá sjómönnum um að tekið verði á verðmyndun sjávarafurða og allur fiskur fari á markað. Eins og áður sagði vilja sjómenn einnig að tekið verði á mönnunarmálum á skipum en krafa er um að á uppsjávarskipunum verði eigi færri en tíu skipverjar þegar veiðar eru stundaðar með flottrolli og eigi færri en 12 þegar um nótaveiðar er að ræða og 15 á ísfiskstogurum. Öllum þessum kröfum hafa útvegsmenn alfarið hafnað,“ segir Vilhjálmur og bætir því við nú sé svo komið að sjómenn íhugi að láta sverfa til stáls og hóta verkfallaðgerðum verði ekki sest til samningaborðs og samið um þau atriði sem þeir nefna í kröfugerð sinni. „Ég mun koma þessum skilaboðum áleiðis til Sjómannasambands Íslands sem fer með samningsumboð fyrir Verkalýðsfélag Akraness sem og önnur aðildarfélög sín,“ segir Vilhjálmur að endingu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is