07. janúar. 2016 10:35
Meðfylgjandi er myndband sem HB Grandi lét gera þegar nýr Víkingur AK 100 kom í fyrsta sinn til heimahafnar á Akranesi í lok síðasta árs. Í fréttinni segir:
"Þetta er alveg stórkostlegt skip og tekur fram eiginlega öllu því sem ég hef séð hingað til og hef ég þó fylgst vel með sjávarútvegi og komið um borð í mörg skipin í gegnum tíðina,“ segir Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis.
Víkingur AK 100, hið nýja og glæsilega uppsjávarskip HB Granda, kom í fyrsta skipti til heimahafnar á Akranesi rétt fyrir jól eftir 11 daga siglingu frá Tyrklandi þar sem skipið var smíðað. Boðið var til móttökuathafnar á Akranesi þann 21. desember sl. í tilefni af heimkomu Víkings og þá gafst fólki sömuleiðis tækifæri til að skoða skipið. Talið er að hátt í þúsund manns hafi notað tækifærið til að skoða Víking í heimahöfn. Mikið var gert til hátíðarbrigða í tilefni af komu skipsins og fluttu m.a. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, Einar K. Guðfinnsson, forseti Aalþingis ,og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness, erindi við þetta tilefni.
Í myndbandi, sem hægt er að horfa á hér að neðan, er m.a. rætt við Vilhjálm Vilhjálmsson, forstjóra HB Granda, Einar K. Guðfinnsson, forseta Alþingis, Albert Sveinsson, skipstjóra Víkings, Ingimund Ingimundarson, útgerðarstjóra uppsjávarskipa félagsins, og Ólaf Adolfsson, formann bæjarráðs Akraness.