08. janúar. 2016 08:01
Sveitarstjórn Grundarfjarðar samþykkti fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 ásamt þriggja ára áætlun áranna 2017-2019 á fundi í desembermánuði. Gert er ráð fyrir að rekstur sveitarfélagsins verði jákvæður um 15,6 milljónir króna á næsta ári. Þannig verði heildartekjur 945,4 milljónir króna, laun eru áætluð 462,1 milljónir króna, önnur rekstrargjöld 336,8 milljónir og afskriftir 46,9 milljónir. Fjármagnsgjöld eru áætluð 84 milljónir króna. Handbært fé í árslok ársins 2016 er því áætlað 34,6 m.kr. gangi fjárhagáætlun ársins 2016 fram eins og ráðgert er. Í sjóðsstreymisyfirliti áætlunarinnar kemur fram að veltufé frá rekstri er 115,9 milljónir. „Þessi fjárhæð nýtist síðan til afborgana lána og nauðsynlegra fjárfestinga sem brýnt er talið að ráðast í á árinu 2016. Ráðgert er að fjárfestingar nettó verði 72,2 milljónir króna og afborganir lána 108,5 milljónir. Tekin verði ný lán að fjárhæð 60 milljónir,“ segir í bókun sveitarstjórnar. Allir fundarmenn tóku til máls og var fjárhagsáætlunin og þriggja ára áætlun samþykkt samhljóða.