Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
13. janúar. 2016 02:26

Ágreiningur um skiptingu bankaskatts á milli sveitarfélaga

Sveitarfélög á landsbyggðinni annars vegar og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hins vegar eru komin í hár saman. Ágreiningsefnið snýst um peninga; hvernig skipta eigi væntanlegu framlagi ríkisins þar sem til stendur að bæta sveitarfélögum landsins upp þann tekjumissi sem varð vegna skattleysis séreignarsparnaðar einstaklinga sem nýttur var til að lækka höfuðstól húsnæðislána í tengslum við skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar. Í frumvarpi um málið sem liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái auknar tekjur af bankaskatti sem notaðar verði til að bæta sveitarfélögunum upp tekjumissi vegna útgreiðslu séreignarsparnaðar. Í upphafi var áætlað að fjárhæðin gæti numið um 2,4 milljörðum króna en líkur eru þó á að hún verði helmingi lægri, eða nær 1,1 milljarði. Hins vegar er töluverð óvissa um áframhaldandi álagningu skattsins og þar með þennan tekjuauka sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir því að tekjurnar skiptist í samræmi við útsvarstekjur sveitarfélaganna. Samband íslenskra sveitarfélaga telur nauðsynlegt að umræddar breytingar verði gerðar á tekjustofnalögum. Ef ekki myndu allmörg sveitarfélög fá enga eða óverulega hlutdeild í þessum tekjum, þrátt fyrir að verða fyrir skerðingu á útsvarstekjum. Slík niðurstaða væri með öllu óásættanleg að mati stjórnar sambandsins, sem styður því eindregið að frumvarpið verði að lögum.

 

 

Verði tekjunum skipt í samræmi við útsvarstekjur sveitarfélaga munu sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fá meirihluta fjárhæðarinnar, þar sem um 65% landsmanna eru búsettir þar. Einstök sveitarfélög á landsbyggðinni og sveitarstjórnarmenn hafa hins vegar lýst þeirri skoðun sinni að skipta ætti framlaginu eins og öðrum tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu andmæla þeim hugmyndum harðlega, enda myndu tekjurnar aðallega dreifast til sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins, verði þeim skipt eins og öðrum tekjum sjóðsins.

 

Óboðlegt landsbyggðinni

Helgi Haukur Hauksson, sveitarstjórnarmaður í Borgarbyggð, tjáði sig um málið á Facebook: „Þessi málflutningur sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er óboðlegur okkur sem búum úti á landi. Ef farin verður sú leið sem m.a. Reykjavíkurborg vill fara með Dag B. Eggertsson og Halldór Halldórsson, fyrrverandi landsbyggðarmann, í fararbroddi munu tapast stórir peningar fyrir smærri sveitarfélög og færast til Reykjavíkur. Þetta mun þýða að úr NV kjördæmi einu munu tapast um 300 milljónir sem annars hefðu átt að koma til sveitarfélaganna hér í kjördæminu. Einnig tapast miklir fjármunir úr NA kjördæmi og Suður kjördæmi.“ Helgi Haukur segir Reykjavíkurborg ekki fullnýta tekjustofna sína og eyða miklum peningum í gæluverkefni sem hægt væri að nýta betur á meðan sveitarfélög úti á landi hafi verið í sársaukafullum aðhaldsaðgerðum til að láta enda ná saman og skerða þjónustu meira en þau hefðu viljað. „Fyrir Borgarbyggð svo dæmi sé tekið munar þetta tugum milljóna króna sem framlag okkar vegna bankaskattsins skerðist. Þetta er óásættanlegt og er mikið í húfi fyrir smærri sveitarfélög að standa saman og berjast fyrir því að Reykjavíkur „óstjórnin“ nái ekki sínu í gegn,“ skrifar Helgi Haukur.

 

Vont fordæmi

Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga lögðu Aldís Hafsteinsdóttir, Jónína Erna Arnardóttir, Gunnlaugur Stefánsson og Ísólfur Gylfi Pálmason fram bókun þar sem þau segjast ekki lengur treysta sér til þess að mæla með því við Alþingi að frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga verði samþykkt. „Verði umrætt frumvarp að lögum er ljóst að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu munu fá stóran hluta þess framlags sem renna mun til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna bankaskattsins. Önnur sveitarfélög munu fá miklu minna en ef að framlagið færi í hefðbundinn farveg útgjaldajöfnunarframlags jöfnunarsjóðs. Það er ósannað að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafi orðið fyrir þvílíku tapi að það réttlæti þessa breytingu á úthlutunarreglum. Auk þess gefur breytingin vont fordæmi til lengri tíma litið enda tekjuöflunarmöguleikar sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu allt aðrir og meiri heldur en smærri sveitarfélaga á landsbyggðinni. Standa ber vörð um hlutverk jöfnunarsjóðs sem er að jafna fjárhagslega stöðu sveitarfélaga. Þetta frumvarp vinnur að okkar mati gegn því meginmarkmiði,“ segir í bókuninni.

 

Að sögn Páls Brynjarssonar framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi hefur ekki verið tekin afstaða til málsins hjá SSV. „Umsögn SÍS um frumvarpið var lögð fram á fundi stjórnar SSV 25. nóvember síðastliðinn. Þar var einungis bókað að hún væri kynnt og ekki tekin afstaða til hennar. Hins vegar verður fundur í stjórn SSV næstkomandi miðvikudag og þá er þetta mál aftur til umræðu. Ég vænti þess að þá liggi fyrir afstaða stjórnar SSV,“ sagði Páll aðspurður um málið.

 

Bæði byggðarráð Dalabyggðar og Borgarbyggðar hafa samþykkt bókanir þar sem lagst er gegn samþykkt frumvarpsins í þeirri mynd sem það nú er, en lagt til að Jöfnunarsjóði verði falið að útdeila fjármununum samkvæmt fyrirliggjandi útdeilingarreglum s.s. varðandi tekjujöfnunarframlag eða útgjaldajöfnunarframlag.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is