18. janúar. 2016 09:01
Starfsárið 2016 í Safnhúsi Borgarfjarðar verður helgað listrænni ljósmyndun í héraði og verða ýmis glæsileg verkefni þvi tengd á dagskrá hússins. Fyrsti áfanginn er opnun sýningar laugardaginn 23. janúar þar sem Ómar Örn Ragnarsson sýnir ljósmyndir. Sýningin hefur hlotið heitið Norðurljós og vísar það til myndefnisins, en myndirnar hefur Ómar tekið í Borgarnesi og nágrenni og segir Borgarnes vera afar vel í sveit sett til slíks.
Ómar hefur rekið verslun á tæknisviði í Borgarnesi um margra ára skeið en er lærður vélvirki og starfaði hjá Borgarplasti og Límtré Vírneti áður en hann hóf eigin rekstur. Hann er fæddur á Drangsnesi í Strandasýslu árið 1959, bjó lengst framan af á Akranesi og fluttist í Borgarnes 1992. Sýning Ómars Arnar er því gott dæmi um ljósmyndalist á Vesturlandi, en hann hefur verið mikill áhugamaður um ljósmyndun með hléum frá æskuárunum. Skemmtilegt er að segja frá því að hann vann sem vélvirki við smíði á listaverkinu Brákinni í Borgarnesi á sínum tíma með Bjarna Þór Bjarnasyni listamanni sem hannaði verkið. Nú er Brákin orðin eitt af einkennistáknum fyrir Borgarnes og sannar gildi listarinnar fyrir umhverfi bæja og sveita.
Sýning Ómars stendur til 26. febrúar. Opið verður 13.00 til 16.00 á opnunardaginn og eftir það kl. 13.00 - 18.00 virka daga; aðgangur er ókeypis.
-fréttatilkynning