Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
18. janúar. 2016 12:01

Ingunn M Freeberg Jónsdóttir frá Bræðraparti er látin

Fregn um andlát Ingunnar M. Jónsdóttur, Ingu á Bræðraparti, barst okkur á Akranesi í lok nýliðins árs. Hún lést á hjúkrunarheimili í Kaliforníu, 9. desember, 93 ára að aldri. Inga var seinust eftirlifandi stofnenda sjóðs sem myndaður var til minningar um hjónin á Bræðraparti, Guðlaugu Gunnlaugsdóttur húsmóður og Jóns Gunnlaugssonar útvegsbónda, foreldra Ingu. Upphaflegur tilgangur minningarsjóðsins var að styrkja fátækt ungt fólk til náms í sjávarútvegsfræðum og vinnslu sjávarafurða, til náms í skipstjórn, vélstjórn, verkstjórn og fiskiðnaði. Stofnfé sjóðsins var landareignin Bræðrapartur, þrír og hálfur hektari lands með öllum gögnum og gæðum. Með landareigninni fylgdu leigulóðarsamningar af landinu og hafa leigutekjur alla tíð runnið til sjóðsins.

 

 

Með breyttum aðstæðum í atvinnuháttum á Akranesi sóttu færri um styrki úr sjóðnum en stofnendurnir hugðu. Það var því einlægur vilji þeirra sem skipuðu stjórn sjóðsins að leggja hann niður og ráðstafa stærstum hluta hans til málefna tengdum slysavörnum og samfélagsmálum á Akranesi.

 

Þann 28. febrúar 2014 var minningarsjóðurinn formlega lagður niður, en framsal veitt fyrir á annað hundrað milljónum króna til uppbyggingar og velferðar á Akranesi, eins og kom fram í ávarpi Elínar Sigrúnar Jónsdóttur í bæjarþingsalnum á Akranesi þegar hún minntist afa síns og ömmu frá Bræðraparti. Bróðurpartur sjóðsins rann til björgunarmála, m.a. til endurnýjunar á björgunarbát Björgunarfélags Akraness. Einnig var fé varið til lagfæringar og varðveislu á bátnum Sæunni, hjallinum og öðrum munum sem eru í Byggðasafninu í Görðum og tengjast Bræðraparti -voru reyndar gefnar safninu af þeim systkinum; og einnig til endurbóta sem gerðar hafa verið á gamla vitanum á Breið, en þar var Jón Gunnlaugsson vitavörður í rúmlega 30 ár. Einnig var fé varið til uppsetningar á heitri laug við Langasand.

 

Í ávarpi Elínar kom það fram að það væri að frumkvæði Ingu sem sjóðnum væri nú slitið og lokað: „Hún er mjög sátt við ráðstöfun eigna sjóðsins. Hennar hugur hefur ætíð verið á Akranesi og hún biður fyrir kærar kveðjur til íbúa og stjórnenda síns gamla bæjarfélags, sem fóstraði hana svo vel,“ sagði Elín enn fremur í ræðu sinni við þetta tækifæri.

 

Inga fæddist 2. nóvember 1922, yngst systkinanna fimm á Bræðraparti. Hún tók fljótlega þátt í daglegum störfum á heimilinu, m.a. við kartöfluræktina, koma kúnni á beit, strokka smjörið auk þess sem hún aðstoðaði föður sinn við að hreinsa og pússa glerin í gamla vitanum, hvernig sem viðraði. Hún stundaði nám í Verslunarskóla Íslands í Reykjavík og eftir það vann hún á skrifstofu HB & Co við almenn skrifstofustörf.

 

Á árinu 1941 þegar landgönguliðar bandaríska flotans leystu Breta og Kanadamenn af hólmi við varnir landsins, kynntist hún bandaríska landgönguliðanum George Freeberg, sem var af sænskum ættum og fæddur í Svíþjóð. George var fljótlega sendur til átakasvæðanna á Kyrrahafi, en þau tóku upp bréfasamband til 1948, þegar Inga giftist George og fluttist til Kaliforníu. Þar áttu þau heimili upp frá því bæði í Los Angeles, Ventura og Carlsbad. Inga og George eignuðust þrjú elskuleg börn, Eric, Carl og Lisu. George lést árið 2013, en börnin voru saman komin með móður sinni þegar hún kvaddi þennan heim. Barnabörnin eru 8 og barnabarnabörnin 2 og eitt á leiðinni.

 

Inga tók þátt í starfi þjóðræknisfélaganna í Kaliforníu af fullum krafti. Hún stundaði yoka löngu áður en fólk þar um slóðir hafði heyrt um það. Einnig fór hún í gönguferðir sér til heilsubótar og ekki dró hún úr þeim eftir að hún greindist með liðagigt sem hrjáði hana seinustu árin.

Inga bjó fjarri átthögum sínum í hátt í 70 ár; en það er til marks um átthagatryggð hennar að reglulega hafði hún samband við gömlu vinkonur sínar þær Öldu og Sjöfn á Auðnum, sem ættaðar voru frá Sýruparti, næsta bæ við Bræðrapartinn. Þær ýmist hringdust á eða skrifuðu bréf, því Inga þurfti að heyra nýjustu fréttir af lífinu á Akranesi, sérstaklega Niðurskaganum, sem hún unni svo heitt.

 

Ingu á Bræðraparti mun ávallt verða minnst sem mikils velgjörðarmanns átthaga sinna, eins og raunar á við um öll systkinin frá Bræðraparti. Ég tek mér það bessaleyfi fyrir hönd Akurnesinga að senda fjölskyldu Ingu Jónsdóttur á Bræðraparti samúðarkveðjur vegna fráfalls hennar og einnig þakkir fyrir vináttu og tryggð sem hún hefur alla tíð sýnt fæðingarbæ sínum Akranesi.

 

Ásmundur Ólafsson setti saman og minntist Ingunnar f.h. Akurnesinga.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is