23. febrúar. 2005 09:34
Nýtt skipurit Landmælinga Íslands var kynnt starfsmönnum stofnunarinnar í lok janúar. Nýja skipuritið tekur gildi 1. maí næstkomandi og er því ætlað að gera daglega stjórnun stofnunarinnar einfaldari, draga úr samkeppnisárekstrum við einkafyrirtæki og auka hagkvæmni í rekstri að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.
Með tilkomu skipuritsins verða kjarnasviðin tvö; mælingasvið og landupplýsingasvið, en voru fjögur áður. Undir starfsemi mælingasviðs falla m.a. landshnitakerfi, hæðakerfi, loftmyndir og gervitunglamyndir. Forstöðumaður sviðsins verður sem fyrr Þórarinn Sigurðsson. Landupplýsingasvið fæst við stafræna gagnagrunna, kortagerð, stjórnsýslumörk, vegagagnagrunn og örnefnagrunn. Forstöðumaður landupplýsingasviðs verður Eydís Líndal Finnbogadóttir sem gegnt hefur starfi forstöðumanns kortasviðs.
Samhliða breytingum vegna endurskoðunar á stefnu og skipulagi Landmælinga Íslands hefur nefnd á vegum umhverfisráðherra unnið að frumvarpi um breytingar á lögum um landmælingar og kortagerð nr. 95/1997. Markmið þeirrar vinnu er að skilgreina hvert eigi að vera hlutverk hins opinbera í landmælingum og kortagerð.
Hjá Landmælingum Íslands á Akranesi starfa nú 36 manns, flestir með sérhæfingu á starfssviði stofnunarinnar.