18. janúar. 2016 11:01
Starfslaunum listamanna fyrir árið 2016 var úthlutað á dögunum, eins og allþekkt er orðið. Frystiklefinn í Rifi fékk úthlutað að þessu sinni úr launasjóði sviðslistafólks til að vinna verkefnið Ferðin að miðju jarðar. Fékk Frystiklefinn tíu mánaða styrk sem skiptist á þá fimm sem að verkefninu munu koma. Það eru ásamt Kára Viðarssyni eiganda Frystiklefans þau Árni Kristjánsson, Friðþjófur Þorsteinsson, Vala Kristín Eiríksdóttir og Víkingur Kristjánsson. Ætlunin er að hefjast handa við verkið í nóvember og stefnt að jóla- eða nýárssýningu eftir því hvernig tekst að púsla öllum saman, en mikið er framundan á árinu hjá Frystiklefanum og ekki tími til að byrja fyrr að sögn Kára. Hann segir einnig að sér fyndist þetta ákveðin sigur fyrir leikhúslífið á landsbyggðinni og sýni að Frystiklefinn sé á háum standard. Margir hópar sæki um í sjóðinn og einungis fáir sem fá úthlutað og ekki oft lítil leikhús úti á landi.